Í amstri dagsins er margt sem foreldrar þurfa að huga að og því hætt við að málörvun barna sé ekki eins markviss og þörf er á. Hér geta leikskólakennarar og leiðbeinendur reynst mikilvægir til að minna á málörvun og finna leiðir til að gera það fjölbreytta málörvunarstarf sem fram fer í leikskólum aðgengilegra foreldrum. Markmið vefsíðunnar er því að auðvelda leikskólakennurum og leiðbeinendum þá vinnu með því að hafa tilbúið efni sem er aðgengilegt og fljótlegt að deila með foreldrum og forráðamönnum.
Dæmi 1: Ef leikskóli/deild barns er að vinna með dýraþema þá er einfaldlega hægt að deila færslunni um dýr með foreldrunum sem skemmtilegri viðbót við starfið í leikskólanum. Dæmi 2: Barn mælist með slaka hljóðkerfis- og/eða málvitund. Þá er hægt að finna færslur um þá þætti sem þarf að styrkja hjá hverju barni fyrir sig og senda á foreldra/forráðamenn. |
Aðgengilegt námsefni til málörvunar
Á síðunni eru tillögur að námsefni sem er að finna á vefnum til að allir eigi auðvelt aðgengi að því sem vísað er á. Þar að auki er smáforritið Orðagull sem ég tel vera einstaklega gott til málörvunar fyrir elstu börnin í leikskóla en hér má nálgast leiðbeiningar um forritið. Forritið er gjaldlaust þegar þetta er skrifað og tel ég að það væri gott að hvetja foreldra elstu barna í leikskóla að hlaða forritinu niður.
Fjölbreyttar og skemmtilegar málörvunarstundir
Tilgangur síðunnar er því að útlista fjölbreyttar og aðgengilegar leiðir til málörvunar og tillögur sem viðbót við lestur, spjall og aðrar aðferðir. Markmiðið er að allir eigi skemmtilega og fróðlega stund saman og mikilvægt að barn og foreldrar/forráðamenn upplifi námsefni af síðunni ekki sem heimavinnu eða kvöð. Ég trúi því að ef það kemst í vana hjá foreldrum og börnum að hafa stuttar og skemmtilegar málörvunarstundir þá muni foreldrar betur eftir málörvun í hversdagsleikanum.
Ert þú með hugmyndir að efni?
Ef þú hefur einhverjar hugmyndir að efni, síðum, þema eða hverju sem er sem þú telur að eigi heima á síðunni þá máttu endilega senda mér póst á hildursigurjonsd@gmail.com. Einnig ef kennarar eða skólar vilja kynna eigið verkefni eða pælingar um málörvun á síðunni þá getum við skoðað það saman. Markmiðið er að safna saman fjölbreyttum leiðum til málörvunar og að efnið sé sem aðgengilegast bæði leikskólum og forráðamönnum. Þannig vonast ég til að efla samstarf í málörvun bæði á milli leikskóla landsins og á milli leikskóla og forráðamanna.