
- Baðaðu barnið í tungumálinu. Hér má nálgast góð ráð af síðu Miðju máls og læsis um gæðamálörvun í daglegu starfi. Fjallað er í stuttu máli um mikilvægi þess að setja orð á hluti og athafnir, endurtaka, bæta við, rétt mál, að lýsa leik barnanna, að vera í augnhæð barnanna og að bíða eftir viðbragði eða svari.

2. Veldu ákveðin tíma dags sem hentar fjölskyldunni til að lesa bók. Oft er lestur tengdur við háttatíma og lögð áhersla á að lesa saman bók fyrir svefninn. Ef það hentar þér og barninu þá getur það vera mjög góður vani að enda daginn á að lesa bók saman. Lestur þarf samt ekki endilega að vera tengdur við háttatíma. Stundum er of lítill tími eða þreyta sem getur komið í veg fyrir gæði lestrarstundarinnar. Þá er gott að velja annan tíma dags þar sem venjan er að lesa bók. Það getur til dæmis verið fyrst á morgnana þegar barnið vaknar, strax og barnið kemur heim úr leikskólanum eða á meðan barnið er í baði. Lykillinn er að tengja þennan fyrir fram ákveða tíma dags við að lesa bók og gera þannig lestur fyrir barnið að daglegum vana.

3. Leyfðu barninu að velja lestrarefnið. Líklegast er að barnið sýni lestrinum áhuga ef það fær sjálft að velja efni sem því finnst spennandi og skemmtilegt.

4. Farið reglulega á bókasafn. Gott er að fara á bókasafn til að finna nýjar og skemmtilegar bækur sem barnið hefur áhuga á að lesa. Á bókasöfnum er einnig oft að finna aðra afþreyingu fyrir börn eins og spil og leikföng sem gott er að nýta til að eiga góða stund saman og örva mál barnanna um leið.

5. Umhverfið. Skapaðu umhverfi á heimilinu sem ýtir undir mál og læsi. Hér eru nokkrar hugmyndir um hvernig skapa má umhverfi sem ýtir undir orðaforða og tjáningu barna. Það þarf alls ekki að nýta allar hugmyndirnar heldur taka þær hugmyndir sem henta þér og þínu barni og gera þær að ykkar.
- Hafðu bækur sem henta áhuga heimilismeðlima sýnilegar og þar sem auðvelt er að grípa í þær.
- Útbúðu kósýhorn eða stað á heimilinu þar sem notalegt er að skoða og lesa bækur.
- Hafðu barnabækur á náttborðin sem auðvelt er að grípa í þegar barnið vaknar snemma.
- Útbúðu málörvunarkassar með bókum og hlutum sem passa við myndirnar úr bókunum.
- Bjóddu upp á fjölbreytt leikföng til málörvunar.
- Bjóddu upp á spil til málörvunar.

6. Notið hugmyndaflugið og lesið í mismunandi aðstæðum. Takið bók með í göngutúr og finnið notalegan stað til að lesa saman – lesið fyrir barnið á meðan það er í baði – lesið undir teppi eða í myrkri með vasaljós og svo framvegis.
Vonandi eigið þið fræðandi og skemmtilegar stundir saman.