Atkvæði

Að geta tengt saman, sundurgreint og eytt út atkvæðum í orðum er hluti hlóðkerfisvitundar. Hér að neðan má finna hugmyndir um hvernig hægt er að vinna með atkvæði með börnum á leikskólaaldri.


Að tengja saman atkvæði þjálfar börnin í að tengja saman tvö atkvæði sem mynda orð. Dæmi: Hvaða orð verður til ef við setjum saman „bol“ og „ti“. Þegar barnið hefur spreytt sig á að tengja saman atkvæðin er flett á næstu síðu og sér það þá mynd af orðinu.


Að sundurgreina atkvæði þjálfar barn í að átta sig á hvernig orð skiptast niður í atkvæði með því að klappa atkvæðin í hverju orði fyrir sig. Dæmi: Það birtist mynd af ís og barnið veltur fyrir sér hversu mörg atkvæði/klöpp eru í orðinu. Á næstu blaðsíðu kemur aftur mynd af ísnum með mynd af einu klappi undir myndinni.

Syngja og klappa atkvæði er skemmtileg hugmynd af síðunni Börn og tónlist. Sungið er stutt lag og svo velur barnið hlut eða fyrirbæri og klappar atkvæðin í orðinu. Heima væri t.d. hægt að nota myndabók til að fá hugmyndir af hlutum eða fyrirbærum, hluti úr umhverfinu eða hvað sem ykkur dettur í hug.

Að fóðra dýrin er verkefni til útprentunar af Læsisvefnum. Prentaðar eru myndir af fjórum dýrum sem eru eins til fjagra atkvæða orð og mat sem er einnig eins til fjagra atkvæða orð. Barnið dregur mynd af mat, klappar atkvæðin í orðinu og gefur dýrinu sem hefur jafn mörg atkvæði. Dæmi: Barnið dregur mynd af kexi. Kex er eins atkvæða orð. Mús er einnig eins atkvæða orð. Barnið gefur músinni kexið.


Klappa atkvæði og lita hringi er verkefni til útprentunar af vefnum Fjölbreyttar kennsluaðferðir. Á verkefninu eru myndir og undir hverri mynd eru hringir. Barnið klappar atkvæði orðsins á hverri mynd fyrir sig og litar svo jafn marga hringi undir myndinni og atkvæðin eru mörg.

Atkvæði – teningaspil er spil til útprentunar af vefnum Fjölbreyttar kennsluaðferðir. Barnið kastar tening og litar mynd með jafnmörgum atkvæðum og talan sem kemur upp segir til um.

Vonandi eigið þið fræðandi og skemmtilega stund saman.

Leave a comment